„Ég get ekki sagt neitt annað en að þjálfaraleitin gangi vel,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is.
Forráðamenn Knattspyrnusambandsins vinna nú hörðum höndum að því að ráða nýjan þjálfara fyrir karlalandslið Íslands en Norðmaðurinn Åge Hareide lét af störfum sem þjálfari liðsins í nóvember eftir að hafa stýrt liðinu frá því í apríl á síðasta ári.
„Við höfum gefið okkur góðan tíma í að vinna þetta, bæði ég, varaformennirnir og stjórnin. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni og við höfum fengið umsóknir frá góðu fólki. Við erum búin að velta þessu mjög vel fyrir okkur síðustu daga,“ sagði Þorvaldur.
Hafa margir sótt um starfið?
„Ég veit ekki hvað er hægt að flokka sem mikið magn af umsóknum en við höfum allavega ekki farið í það að auglýsa stöðuna og við munum ekki gera það. Við höfum áður gefið það út að við ætluðum alltaf að taka okkur tíma í þetta en að það þyrfti samt sem áður að vinna þetta hratt.
Við erum komin á góðan stað í dag en mér finnst ólíklegt að við fáum nýjan þjálfara í jólagjöf. Þetta er ákveðið ferli, sem við erum að klára innanhúss, um það hvernig við sjáum þetta fyrir okkur og hvernig manneskju við erum að leita að. Ég geri fastlega ráð fyrir því að línur verði farnar að skýrast eftir tvær til þrjár vikur.“
Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson hafa báðir verið sterklega orðaðir við þjálfarastöðuna og þá hefur Norðmaðurinn Per-Mathias Högmo einnig verið orðaður við starfið að undanförnu.
„Það hafa mörg nöfn verið nefnd til sögunnar í fjölmiðlum en það hefur enginn verið boðaður í viðtal enn sem komið er. Við höfum rætt við fólk í kringum okkur og innan knattspyrnuhreyfingarinnar og svo kemur að þeim tímapunkti að við förum í það að ræða beint við mögulega þjálfara.
Mér finnst það vera skylda okkar að leita fyrst innan landsteinanna enda er til mikið af góðum íslenskum þjálfurum. Það er alltaf kostur og í draumaheimi viljum við ráða þjálfara úr okkar uppeldisstarfi. Það er hins vegar ekkert útilokað heldur að erlendur þjálfari verði ráðinn.
Við munum ræða við þrjá til fjóra þjálfara og mynda okkur svo skoðanir út frá þeim viðtölum. Eins og ég kom inn á áðan væri frábært ef næsti landsliðsþjálfari yrði Íslendingur en stundum er það einfaldlega ekki hægt,“ bætti Þorvaldur við í samtali við mbl.is.