„Það kom aldrei til greina að reka Hallgrím“

Hallgrímur Jónasson.
Hallgrímur Jónasson. mbl.is/Ólafur Árdal

Bikarmeistarar KA hafa sett stefnuna á það að leika heimaleiki sína í Sambandsdeild karla í knattspyrnu á heimavelli sínum á íþróttasvæði KA á Akureyri næsta sumar.

Akureyrarliðið lék heimaleiki sína í Sambandsdeildinni á heimavelli Fram í Úlfarsárdal sumarið 2023 en nú er kominn nýr völlur á svæði KA og framkvæmdir við byggingu stúkunnar eru þegar hafnar.

„Aðstaðan hjá okkur er alltaf að verða betri og betri og það er ákveðin hvatning fyrir okkur til þess að halda áfram að gera vel, innan sem utan vallar,“ sagði Hjörvar Maronsson, formaður knattspyrnudeildar KA, í samtali við Morgunblaðið.

„Draumurinn er sá að stúkan verði orðin tilbúin um mitt næsta sumar og þá ættum við að geta spilað heimaleiki okkar í Evrópukeppninni á Akureyri. Það var byrjað að steypa grunninn að stúkunni í nóvember en það þarf allt að ganga upp ef hún á að vera klár. Þetta fer líka eftir tíð og veðurfari en þetta er möguleiki í dag og við lifum á þeim möguleika,“ sagði Hjörvar.

Kom aldrei til greina

Rætt var um stöðu Hallgríms Jónassonar þjálfara liðsins í upphafi tímabilsins þegar KA var í botnbaráttu Bestu deildarinnar en Hjörvar ítrekar að það hafi aldrei komið til tals að segja þjálfaranum upp störfum.

„Það kom aldrei til greina að reka Hallgrím Jónasson. Við settumst vissulega niður með honum og við vorum sammála um að það væru ákveðnir hlutir sem þyrfti að breyta og mér fannst hann gera það mjög vel. Hann naut og nýtur fulls trausts innan félagsins og það er mikil tilhlökkun fyrir því sem koma skal undir hans stjórn.“

Viðtalið við Hjörvar má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert