„Hættulegur leikur að ofhugsa þessa hluti“

Valdimar Þór Ingimundarson og Arnar Gunnlaugsson eru tilbúnir í slaginn …
Valdimar Þór Ingimundarson og Arnar Gunnlaugsson eru tilbúnir í slaginn í Austurríki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur úr Reykjavík heimsækir LASK til Linz í Austurríki í lokaumferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í mikilvægum leik fyrir Víkinga í kvöld. Víkingur getur með hagstæðum úrslitum komist áfram í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.

Víkingur er sem stendur í 18.-19. sæti deildarinnar með sjö stig eftir fimm leiki. Liðin sem hafna í 9.-24. sæti fara í ofangreint umspil en liðin í efstu átta sætunum fara beint í 16-liða úrslit.

LASK hefur valdið miklum vonbrigðum í Sambandsdeildinni, er með aðeins tvö stig og á svo gott sem engan möguleika á að komast áfram. Liðið steinlá fyrir Alberti Guðmundssyni og félögum í Fiorentina í síðustu umferð er það tapaði 7:0 á Ítalíu.

Spurður hvort hann teldi það betra eða verra fyrir Víking að LASK væri í þeirri stöðu að hafa nánast ekki að neinu að keppa nema þá verðlaunafé sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings við Morgunblaðið:

Betra að hafa eitthvað undir

„Ég held að það sé alltaf betra að hafa eitthvað undir þegar þú ert að keppa í íþróttum. Það er allavega mín reynsla. Deildarkeppnin þeirra er nýkomin í frí þannig að þetta er síðasti leikur þeirra fyrir jólafrí.

Mögulega ætla þeir að reyna að peppa sig í gang. Alveg sama hvað félagið heitir þá skipta allar evrur til eða frá í verðlaunafé máli. Ég held að þeir vilji fara í þetta frí í góðri stemningu af því að þeir hafa ekki náð þeim árangri sem búist var við.

En svo þegar lítið er undir byrjarðu kannski leikinn mjög vel en svo við fyrsta mótlæti nennirðu þessu ekki, innan gæsalappa. Það verður fróðlegt að sjá hvort það hjálpi okkur eða ekki. Svo eru þetta hlutir sem við eigum hvort eð er ekki að pæla í. Ég held að það sé hættulegur leikur að vera að ofhugsa þá hluti.“

Viðtalið við Arnar í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert