„Það var ákveðinn sigur fyrir mig að ná að snúa þessu mér í hag,“ sagði Skagamaðurinn og knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Arnór Smárason í Dagmálum.
Arnór, sem er 36 ára gamall, lagði skóna á hilluna á dögunum en hann á að baki farsælan atvinnumannaferil í Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Rússlandi og Noregi.
Sænska goðsögnin Henrik Larsson tók við stjórnartaumunum hjá Helsingborg þegar Arnór var á sínu öðru tímabili hjá félaginu í Svíþjóð en félagið vildi losna við Íslendinginn af launaskrá um tíma.
„Ég endaði tímabilið á því að vera hans maður, maðurinn hans Larsson, og það gekk allt upp,“ sagði Arnór.
„Ég var fyrsti maður á blað hjá honum og það komu tilboð í mig í lok gluggadagsins sem ég var mjög spenntur fyrir en þá hafði þeim snúist hugur. Hann neitaði mér um að fara og það var í eina skiptið sem ég lét hann heyra það,“ sagði Arnór meðal annars.
Viðtalið við Arnór í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.