Víkingar eru komnir í umspilið

Víkingar eru komnir í umspil Sambandsdeildar karla í fótbolta, fyrst íslenskra liða sem nær svona langt í Evrópukeppni, eftir jafntefli gegn LASK, 1:1, í Linz í Austurríki í kvöld.

Víkingar enda með 8 stig í nítjánda sæti deildarinnar og þetta þýðir að þeir spila tvo umspilsleiki í febrúar, gegn Panathinaikos frá Grikklandi eða Olimpija Ljubljana frá Slóveníu, sem enda í 13. og 14. sæti deildarinnar, en dregið verður til umspilsins á morgun.

Víkingar náðu forystunni á 23. mínútu. Eftir langt innkast skallaði Nikolaj Hansen boltann og hann fór í hönd varnarmanns LASK. Vítaspyrna og úr henni skoraði Ari Sigurpálsson af öryggi, 1:0 fyrir Víking.

Það entist ekki lengi því á 27. mínútu jafnaði Marin Ljubicic með viðstöðulausu skoti af markteig eftir að Maximilian Entrup komst að endamörkum hægra megin og renndi boltanum út til hans, 1:1.

Sex mínútum síðar komst Entrup í færi vinstra megin í vítateignum en Ingvar Jónsson lokaði vel á hann og varði með fótunum.

Litlu munaði að Víkingar kæmust yfir á ný á 38. mínútu þegar Valdimar Þór Ingimudarson skallaði boltann inn að vítapunkti þar sem Nikolaj Hansen skallaði af krafti í þverslána og út.

Ljubicic komst í ágætt færi vinstra megin í vítateig Víkings á 43. mínútu en Ingvar kom vel út á móti honum og varði í horn.

Víkingar urðu fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Jón Guðni Fjóluson meiddist og þurfti að fara af velli. Halldór Smári Sigurðsson kom í hans stað. Staðan var 1:1 í hálfleik og Víkingar áfram í 19. sæti deildarinnar miðað við stöðuna þá.

Í seinni hálfleik gerðist fátt upp við mörkin. LASK skoraði fljótlega en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Ingvar Jónsson greip vel inn í leikinn nokkrum sinnum en Víkingar voru ekki í of miklum vandræðum með að halda fengnum hlut og áttu ágætar sóknir inn á milli.

Þegar fimm mínútna uppbótartími var að hefjast fékk Karl Friðleifur Gunnarsson sitt annað gula spjald og var því rekinn af velli.

Víkingar fengu samt færi undir lokin þegar Gísli Gottskálk Þórðarson brunaði upp völlinn og skaut frá vítateig en rétt framhjá markinu hægra megin.

Víkingar voru ekki í vandræðum með að sigla jafnteflinu heim á síðustu mínútunum og gátu fagnað vel í leikslok.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Tottenham 4:3 Man. United opna
90. mín. Jonny Evans (Man. United) skorar +4 - MARK!!! Evans skorar með skalla eftir hornið.

Leiklýsing

LASK 1:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Karl Friðleifur Gunnarsson (Víkingur R.) fær rautt spjald Annað gult spjald og brot á leikmanni sem var að komast að vítateignum hægra megin!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert