Víkingar eiga í kvöld möguleika á að komast í umspil Sambandsdeildar karla í fótbolta en þeir mæta þá LASK í lokaumferð deildarkeppninnar í austurrísku borginni Linz.
Jafntefli tryggir Víkingum sæti í umspilinu en tapi þeir leiknum þurfa þeir hagstæð úrslit í öðrum leikjum til að fara áfram.
Tölfræðivefurinn Football Meets Data hefur reiknað út líkurnar á hverjir mótherjar liðanna verða í umspilinu, komist þau þangað, en þegar úrslit leikjanna liggja fyrir í kvöld verður hægt að sjá hvaða liðum hvert lið getur mætt. Komist Víkingar áfram, verður strax á hreinu hvaða tveimur liðum þeir geta mögulega dregist gegn.
Sem dæmi - ef Víkingar enda í 21. eða 22. sæti að loknum leikjum kvöldsins mæta þeir í umspilinu annaðhvort liðinu sem endar í 11. eða 12. sæti.
Hjá Víkingum er Shamrock Rovers frá Írlandi líklegasti andstæðingurinn í umspilinu, og hjá Shamrock Rovers er Víkingur líklegasti mótherjinn.
Liðin mættust einmitt í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar í sumar. Þau gerðu þá markalaust jafntefli á Víkingsvellinum en Shamrock vann 2:1 í Dublin þar sem Nikolaj Hansen skaut í stöng úr vítaspyrnu eftir að leiktímanum var lokið.
Bæði lið hafa síðan átt góðu gengi að fagna og lið Shamrock er þegar öruggt með að komast í umspilið. Írska liðið er taplaust í keppninni, með 11 stig úr fimm leikjum, og er í sjötta sæti fyrir leiki kvöldsins. Endi það í einu átta efstu sætanna fer það beint í sextán liða úrslit og sleppur við umspilið.
Shamrock á hins vegar heldur betur erfiðan leik í kvöld, gegn enska liðinu Chelsea á Stamford Bridge í Lundúnum, þannig að skiljanlega reikna flestir með því að liðið endi í níunda sæti eða neðar og verði því í umspilinu.
Football Meets Data stillir upp fimm líklegustu mótherjum hvers liðs. Hjá Víkingi er Shamrock Rovers í fyrsta sæti en síðan koma Heidenheim frá Þýskalandi, FC Köbenhavn frá Danmörku, Gent frá Belgíu og Rapid Vín frá Austurríki.