Eftir að Víkingar tryggðu sér sæti í umspili Sambandsdeildar karla í fótbolta í kvöld liggur fyrir hvaða tveimur liðum þeir geta mætt í umspilinu.
Dregið verður í hádeginu á morgun en búið er að stilla liðunum upp fyrir dráttinn á þann hátt að Víkingur og Borac Banja Luka, sem enduðu í 19. og 20. sæti, munu mæta Panathinaikos frá Grikklandi eða Olimpija Ljubljana frá Slóveníu sem enduðu í 13. og 14. sæti.
Sverrir Ingi Ingason landsliðsmiðvörður leikur með Panathinaikos og það gerir reyndar einnig Hörður Björgvin Magnússon en hann er úr leik það sem eftir tímabilsins vegna meiðsla.
Olimpija er hins vegar betri kostur fyrir Víkinga hvað það varðar að eiga möguleika á að komast enn lengra í keppninni. Þeir þekkja til liðsins eftir að hafa mætt því fyrir fjórum árum, á kóvid-árinu 2020 þegar aðeins var leikinn einn leikur í hverri umferð.
Víkingar fóru þá til Slóveníu og töpuðu þar mjög naumlega fyrir Olimpija, 2:1, í framlengdum leik. Samt voru Víkingar manni færri nánast allan leikinn því Sölvi Geir Ottesen fékk rauða spjaldið strax á 6. mínútu leiksins.
Leikirnir í umspilinu fara fram 13. og 20. febrúar og Víkingar leika enn einn heimaleikinn á Kópavogsvelli.