Víkingur úr Reykjavík mætir Íslendingaliði Panathinaikos frá Grikklandi í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar karla í knattspyrnu en dregið var í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í dag.
Víkingar höfnuðu í 19. sæti deildarinnar í ár með átta stig en Pannathinaikos hafnaði í 13. sætinu með tíu stig. Sverrir Ingi Ingason og Hörður Björgvin Magnússon leika með Panathinaikos.
Umspilsleikirnir fara fram 13. og 20. febrúar og verður leikið að heiman og heima. Fyrri leikurinn fer fram á Kópavogsvelli og sá síðari í Aþenu í Grikklandi.
Sigurvegarnir úr einvíginu tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum ásamt Chelsea, Vitoria Guimaraes, Fiorentina, Rapid Vín, Djurgården, Lugano, Legiu Varsjá og Cercle Brugge.
Þá mæta Andri Lucas Guðjohnsen og liðsfélagar hans í belgíska félaginu Gent liði Real Betis frá Spáni.
Drátturinn í heild sinni:
TSC – Jagiellonia
Molde – Shamrock Rovers
Celje – APOEL
Omonia Nicosia – Pafos
Víkingur – Panathinaikos
Borac Banja Luka – Olimpija
Gent – Real Betis
FC Köbenhavn – Heidenheim