Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur heimilað starfshópi að bjóða þremur þjálfurum í viðtal um starf þjálfara karlalandsliðsins.
Þetta kemur fram í fundargerð stjórnarfundar sambandsins sem haldinn var 20. desember en hún var birt í dag.
Þar segir að Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ hafi farið yfir stöðu mála varðandi ráðningarferli þjálfara A-landsliðs karla. Hópurinn hafi óskað eftir heimild stjórnar til að bjóða þremur þjálfurum í viðtal og stjórnin samþykkti tillöguna. Þjálfararnir eru ekki nafngreindir.
Þrír þjálfarar hafa helst verið nefndir til sögunnar, þeir Arnar Gunnlaugsson, Freyr Alexandersson og Norðmaðurinn Per-Mathias Högmo.
Starfshópinn skipa Þorvaldur formaður og varaformennirnir Helga Helgadóttir og Ingi Sigurðsson og hann nýtur stuðnings knattspyrnusviðs en yfirmaður þess er Jörundur Áki Sveinsson.