Fyrrverandi leikmaður Ólafsvíkinga látinn

Michael Newberry í leik með Víkingi frá Ólafsvík fyrir nokkrum …
Michael Newberry í leik með Víkingi frá Ólafsvík fyrir nokkrum árum. Haraldur Jónasson/Hari

Enski knattspyrnumaðurinn Michael Newberry er látinn á 27 ára afmælisdegi sínum.

Breska ríkisútvarpið skýrir frá því að Newberry hafi látist skyndilega en dánarorsök er ókunn að svo stöddu. Hann var síðast leikmaður Cliftonville í norðurírsku úrvalsdeildinni.

Þar á undan lék Newberry fyrir Linfield í sömu deild og varð norðurírskur meistari með liðinu í tvígang á þremur árum.

Leikjum Cliftonville og Linfield, sem bæði áttu að spila leiki í deildinni í kvöld, hefur verið frestað.

Newberry, sem ólst upp hjá Newcastle United, hóf meistaraflokksferilinn með Víkingi frá Ólafsvík sumarið 2018, þá tvítugur, og var fastamaður hjá liðinu í 1. deild þrjú tímabil í röð.

Hann lék alls 60 leiki í deildinni frá 2018 til 2020 og fimm bikarleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert