„Af því að þú minnist á Óskar Hrafn, þá var það sápuópera ársins,“ sagði Helga Margrét Höskuldsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, í íþróttauppgjöri Dagmála þegar rætt var um Óskar Hrafn Þorvaldsson og KR.
Óskar Hrafn tók við sem þjálfari KR-inga um miðjan ágústmánuð eftir miklar hrókeringar en hann var fyrst ráðinn tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar, svo yfirmaður knattspyrnumála, síðar var svo tilkynnt að hann yrði Pálma Rafni Pálmasyni innan handar í þjálfarateyminu og að hann myndi taka við liðinu að tímabili loknu áður en hann var loksins tilkynntur sem þjálfari liðsins.
„Allar þessar stólaskiptingar í Vesturbænum. Það voru allir að bíða eftir því sem var alltaf að fara að gerast einhvernveginn“ sagði Helga Margrét.
„Svo var greyið Pálma Rafni alltaf hent til og frá þarna,“ bætti Aron Elvar Finnsson, íþróttablaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu, meðal annars við.