Reynsluboltinn Þórarinn Ingi Valdimarsson hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna eftir átján ára meistaraflokksferil.
Þetta tilkynnti hann sjálfur á Facebook-síðu sinni í dag.
Þórarinn Ingi, sem er 34 ára gamall, lék með Stjörnunni frá 2018 en hann er uppalinn hjá ÍBV í Vestmannaeyjum og lék þar til 2012 og aftur seinni hluta tímabilsins 2014.
Flesta leikina í efstu deild lék Þórarin með ÍBV, eða 86, en 83 með Stjörnunni og 56 með FH. Á síðasta tímabili lék hann tíu leiki með Garðabæjarliðinu í Bestu deildinni.
Þá lék hann í hálft annað ár með Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni og lék þar 39 leiki og skoraði tvö mörk á árunum 2013 og 2014. Með FH lék Þórarinn þrjú tímabil, frá 2015 til 2017.
Alls lék hann 357 mótsleiki hérlendis og þar af 225 í efstu deild en í þeim skoraði Eyjamaðurinn 21 mark.
Deildaleikirnir á Íslandi og í Noregi eru samtals 295 og mörkin 25.
Þórarinn Ingi spilaði fjóra A-landsleiki fyrir Íslands hönd og 15 leiki með yngri landsliðunum.