Erfitt að velja en annað augnablikið var stærra

Glódís Perla Viggósdóttir ávarpar áhorfendur í Hörpu eftir að hún …
Glódís Perla Viggósdóttir ávarpar áhorfendur í Hörpu eftir að hún tók við viðurkenningunni. mbl.is/Ólafur Árdal

„Ég er meyr núna og veit ekki alveg hvernig ég á að haga mér en þetta er ótrúlega gaman og ég er mjög stolt af þessu," sagði Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í fótbolta og Bayern München, við mbl.is eftir að hún var kjörin Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna.

Glódís tók við viðurkenningunni í Hörpu í Reykjavík í hófi Samtakanna og ÍSÍ en hún er áttunda konan sem er kjörin Íþróttamaður ársins í 69 ára sögu kjörsins.

Ekki nóg með það, heldur urðu kraftlyftingakonan Sóley Margrét Jónsdóttir og lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir í öðru og þriðja sæti.

„Þetta er svo gríðarlega mikill heiður og stór viðurkenning sem er kannski ekki bara fyrir þetta ár heldur mörg ár af vinnu, og mörg ár af árangri og öllu sem því fylgir, upp og niður og allt þetta," sagði Glódís um sigurinn í kjörinu.

Hún þekkir vel að stíga upp á þetta svið því Glódís varð þriðja í kjörinu 2023 og önnur árið 2022, og hafði þá tvívegis verið áður í hópi tíu efstu íþróttamannanna.

Valkyrjurnar þrjár - Eygló Fanndal, Glódís Perla og Sóley Margrét …
Valkyrjurnar þrjár - Eygló Fanndal, Glódís Perla og Sóley Margrét - efstar í kjörinu á íþróttamanni ársins 2024. mbl.is/Ólafur Árdal

„Já, ég er búin að koma hingað oft og það hefur verið ótrúlega gaman að koma og sjá alla þessa frábæru íþróttamenn sem við eigum á Íslandi. Það er einsdæmi miðað við höfðatölu hve langt við náum í íþróttum. Svo er ótrúlega gaman að mæta hingað og hitta hina - en það var vissulega mjög sérstakt að koma upp á sviðið til að taka við þessari viðurkenningu í kvöld."

Sýnir hve langt við erum komin

En er ekki líka sérstakt að þið skulið vera þrjár konur í þremur efstu sætunum?

„Jú, það er bara frábært og sýnir hve langt við erum komin, og hvað allar konur, ekki bara íþróttakonur, eru að taka til sín og eru farnar að taka pláss í samfélaginu okkar. Þetta er frábært skref fyrir okkur og við erum til fyrirmyndar fyrir aðrar þjóðir hvað þessa hluti varðar."

Þú hefur sagt að tvennt standi upp úr á árinu 2024, en hvað ef þú yrðir að velja eitt?

Þrjár efstu í kjörinu ásamt forseta Íslands, ráðherrum, forseta ÍSÍ …
Þrjár efstu í kjörinu ásamt forseta Íslands, ráðherrum, forseta ÍSÍ og formanni Samtaka íþróttafréttamanna. mbl.is/Ólafur Árdal

„Mér finnst gríðarlega erfitt að velja á milli, því það eru mjög mismunandi ástæður fyrir á bak við þessa tvo stóru hápunkta mína á árinu. En ef ég verð að velja á milli þá er það leikurinn gegn Þýskalandi, þegar við unnum 3:0 og tryggðum okkur sæti á EM.

Það var gríðarlega stórt augnablik, því við flestar í landsliðinu spiluðum á Símamótinu á sínum tíma, og svo vorum við á leiknum með fulla stúku af Símamótsstelpum sem í dag vilja verða eins og við. Þegar við vorum á þeirra aldri höfðum við ekki allar þessar fyrirmyndir. Að fá að upplifa með þeim að vinna okkur sæti á EM, að upplifa með þeim að vinna Þýskaland, sem mér þótti alls ekki leiðinlegt á þessum tímapunkti, var algjör hápunktur á árinu.

En að sama skapi var meistaratitillinn í Þýskalandi það líka, að vinna hann í fyrsta skipti sem fyrirliði Bayern var afar sérstakt. Það er því í raun þetta tvennt sem stendur upp úr og ég mun aldrei gleyma hvorugu."

Glódís Perla Viggósdóttir ásamt stjórn Samtaka íþróttafréttamanna - Þorkell Gunnar …
Glódís Perla Viggósdóttir ásamt stjórn Samtaka íþróttafréttamanna - Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Edda Sif Pálsdóttir og Tómas Þór Þórðarson formaður. mbl.is/Ólafur Árdal

Þetta kjör á íþróttamanni ársins hjálpar líka mikið til hvað varðar hlutverk ykkar sem fyrirmyndir, ekki satt?

„Jú, það skiptir miklu máli og við höfum bætt okkur mikið sem þjóð í að búa til þessar fyrirmyndir fyrir krakkana okkar og unga fólkið. Við verðum að eiga einhverja sem þau geta litið upp til og það skiptir gríðarlega miklu máli að þau viti að þau geti gert allt sem þau vilja, hvort sem það er að vera kraftlyftingakona, fótboltakona, forseti eða hvað sem er."

Sturluð byrjun á árinu

Hvernig verður að fara inn í árið 2025 með þennan titil í farteskinu?

„Þetta er sturluð byrjun á árinu. Ég bjóst aldrei við því að byrja ár á þennan hátt en ég er mjög spennt fyrir því að fara aftur út til Þýskalands, mæta aftur á æfingar og halda áfram að bæta mig sem leikmaður. Klára síðan tímabilið í Þýskalandi og undirbúa okkur fyrir EM í sumar, þannig að það er gríðarlega margt framundan."

Þú þarft að hugsa um margt áður en kemur að EM. Þið hjá Bayern eruð á fullu í Meistaradeildinni og í baráttu um þýska meistaratitilinn.

„Já, við ætlum okkur stóra hluti í Meistaradeildinni og svo erum við að spila í jöfnustu deild sem hefur verið í Þýskalandi í langan tíma. Það verður því gríðarlega mikið af mikilvægum leikjum eftir áramótin sem er mjög skemmtilegt.

Auðvitað er ég mjög spennt fyrir því að spila á EM í sumar, ég ætla ekki að fela það, en það þýðir ekki að fara að horfa þangað strax. Besti undirbúningurinn er að mæta á hverja einustu æfingu í vetur og vor og verða betri í fótbolta," sagði Glódís Perla Viggósdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert