Gísli Gottskálk Þórðarson, knattspyrnumaðurinn efnilegi úr Víkingi, fer að öllum líkindum til pólska félagsins Lech Poznan.
Przeglad Sportowy í Póllandi greindi frá því í síðustu viku að bæði Lech og Raków hefðu gert Víkingum tilboð í Gísla og Fótbolti.net segir í dag að Lech sé langt komið með að tryggja sér Víkinginn. Samkvæmt Przeglad vildu Víkingar fá 500-600 þúsund evrur, 72-86 milljónir króna, fyrir hann.
Lech Poznan er með tveggja stiga forystu á toppi pólsku úrvalsdeildarinnar þegar leiknar hafa verið 18 umferðir af 34 á yfirstandandi tímabili. Víkingar þekkja vel til liðsins eftir að hafa mætt því tvisvar í undankeppni Sambandsdeildarinnar sumarið 2022. Víkingar unnu þá heimaleikinn 1:0 en töpuðu 4:1 eftir framlenginu í Póllandi.
Gísli var þá 17 ára gamall, nýkominn til Víkings frá Bologna á Ítalíu og sat á varamannabekk liðsins í báðum leikjunum gegn Lech en kom ekki við sögu. Hann hefur síðan slegið í gegn með Víkingum og var í stóru hlutverki hjá þeim á árinu 2024.