Knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir vildi taka við karlaliði Vals er liðið rak Arnar Grétarsson á miðju síðasta tímabili. Félagið réð hins vegar Srdjan Tufegdzic til starfa.
Þessu greindi hún frá í hlaðvarpsþættinum Klefanum. Elísabet er enn án þjálfarastarfs eftir að hún lét af störfum hjá Kristianstad í Svíþjóð á síðasta ári.
Þar náði hún afar góðum árangri frá 2009 til 2023. Þar á undan stýrði hún kvennaliði Vals frá 2004 til 2008 og vann fjölmarga titla með liðinu. Var hún í kjölfarið ráðin til Kristianstad.
Elísabet þekkir því til hjá Val, en hún fékk ekki símtalið þegar Arnar var látinn fara.
„Ef Valur hefði hringt í sumar og boðið mér að taka við karlaliðinu hefði ég gert það á einni sekúndu. Það er svo margt sem þarf að taka til í því liði og ég hefði elskað áskorunina.
Ég horfi á leikina og ég sé vandamál í samskiptum leikmanna. Ég væri til í að geta gert eitthvað í þessu rugli,“ sagði Elísabet við Silju Úlfarsdóttur umsjónarmann Klefans.