Íslenska stúlknalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, leikur heimaleiki sína í milliriðli Evrópumótsins í þessum aldursflokki á Spáni í mars.
KSÍ skýrði frá þessu á heimasíðu sinni í dag en þegar dregið var í riðla fyrir milliriðilinn kom það í hlut Íslands að vera mótshaldari.
Samkomulag tókst á milli knattspyrnusambanda landanna um að spila á Spáni, væntanlega á Pinatar-svæðinu við Murcia, en Ísland mætir þar Belgíu, Spáni og Úkraínu dagana 8. til 14. mars. Sigurliðið í riðlinum kemst í úrslitakeppnina um Evrópumeistaratitilinn sem fer fram í Færeyjum í maí.
Þar með verða heimaleikirnir sem íslensk félagslið og landslið þurfa að spila erlendis vegna vallarskilyrða næstu mánuði orðnir fimm talsins. Víkingur mætir Panathinaikos í umspili Sambandsdeildar karla 13. febrúar, væntanlega í Danmörku, og karlalandsliðið mætir Kósóvó í heimaleiknum í umspili Þjóðadeildarinnar í Murcia á Spáni 23. mars.