„Þetta var smá menningarsjokk en fólkið var yndislegt þarna og það var tekið mjög vel á móti manni þarna,“ sagði knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Theódór Elmar Bjarnason í Dagmálum.
Theódór Elmar, sem er 37 ára gamall, lagði skóna á hilluna í haust eftir farsælan feril og var ráðinn aðstoðarþjálfari uppeldisfélags síns KR.
Elmar lék í þrjú ár í Tyrklandi með Elazigspor, Gazisehir Gaziantep og Akhisarspor en hann gekk til liðs við Elazigspor árið 2017 eftir níu ár í Skandinavíu.
„Ég komst að því að Tyrkir eru barnvænasta þjóð veraldar og það var frábært að vera með barn þarna,“ sagði Theódór Elmar.
„Strákurinn okkar var eins og hálfs árs þegar við flytjum þangað. Allir veitingastaðir eru með barnahorn og fólk í vinnu sem sjá um börnin á meðan foreldrarnir borða.
Þeir settu börnin alltaf í fyrsta sætið,“ sagði Theódór Elmar meðal annars.