Aron til liðs við HK

Aron Kristófer Lárusson í leik með KR-ingum.
Aron Kristófer Lárusson í leik með KR-ingum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Aron Kristófer Lárusson er genginn til liðs við HK frá Þór á Akureyri og hefur samið við Kópavogsfélagið til þriggja ára.

Aron er 26 ára gamall og hefur mest leikið sem vinstri bakvörður en hann lék í úrvalsdeildinni með ÍA og síðan KR frá árinu 2019 og á að baki 74 leiki í deildinni þar sem hann hefur skorað tvö mörk. Hann lék níu leiki með KR í deildinni fyrri hluta síðasta tímabils.

Aron gekk svo til liðs við Þórsara seinnipart síðasta sumars, eftir fimm ára fjarveru, en með þeim á hann að baki 51 leik í 1. deild og hefur þar skorað sjö mörk. Meistaraflokksferlinn hóf hann árið 2016 með Völsungi í 2. deild og skoraði þá eitt mark í átján leikjum Húsvíkinga.

Líklegt er að Aron leiki stöðu miðvarðar með HK og fylli þar skarð Þorsteins Arons Antonssonar sem sneri aftur til Vals í vetur eftir lánsdvöl í efri byggðum Kópavogs.

HK leikur í 1. deild á þessu ári eftir tvö tímabil í Bestu deildinni en liðið féll þaðan með minnsta mun, á markatölu, síðasta haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert