Knattspyrnumaðurinn Bjarki Steinsen Arnarsson er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt Fylki frá FH. Skrifaði hann undir tveggja ára samning.
Bjarki er 19 ára gamall miðjumaður sem gekk til liðs við FH sumarið 2022. Var hann nokkrum sinnum á varamannabekknum hjá Hafnarfjarðarliðinu í Bestu deildinni en kom ekkert við sögu.
Hann lék sjö leiki fyrir Fylki í Reykjavíkurmótinu og deildabikarnum fyrir tímabilið 2022 en á enn eftir að spila sinn fyrsta leik í meistaraflokki í deild eða bikar.
„Það er frábært að vera kominn heim aftur í Fylki. Mér líst gríðarlega vel á leikmannahópinn og þjálfarateymið og ég er mjög spenntur fyrir komandi tímabili,“ sagði Bjarki í tilkynningu frá knattspyrnudeild Fylkis.