Yfirlýsing frá Jóni Rúnari: Hagnaðist ekki á knatthúsi

Jón Rúnar Halldórsson.
Jón Rúnar Halldórsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jón Rúnar Halldórsson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar FH og eigandi Best-húsa, sem flutti inn burðarvirki og ytra byrði knatthússins Skessunnar telur ómaklega að sér vegið í fjölmiðlaumfjöllun sem byggði á skýrslu Deloitte sem unnin var fyrir Hafnarfjarðarbæ vegna fyrirhugaðra kaupa bæjarins á mannvirkinu. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann hefur sent á mbl.is. Segir hann að fjölmiðlar hafi látið að því liggja að ekki væru haldbærar skýringar á greiðslum FH til Best-húsa sem hafði milligöngu að efnisflutningi til landsins frá Finnlandi. Segir hann að hvorki hann né Best-hús hafi hagnast af milligöngunni. 

Deloitte hafi ekki leitað skýringa 

Segir Jón Rúnar að Deloitte ekki hafa gert neina tilraun til að leita skýringa hjá honum áður en gerð var athugasemd í skýrslunni við aðkomu Best-húsa og greiðslu til fyrirtækisins.

„Í raun sökuðu fjölmiðlar mig og fyrirtæki mitt ranglega um að hafa með ólögmætum eða í það minnsta ósiðlegum hætti makað krókinn á viðskiptum við FH vegna byggingar Skessunnar,“ segir Jón Rúnar.

Hins vegar hafi enginn fjölmiðla gefið gaum að orðum í skýrslu Deloitte þar sem sérstaklega er getið þess að vinna og verklag við gerð hennar hafi ekki falið í sér staðfestingarvinnu eða geti að nokkru leyti talist grundvöllur endurskoðunar eða áreiðanleikakönnunar.

Deloitte hafi sett fyrirvara á upplýsingarnar 

„Þá tók Deloitte ehf. fram að félagið gæti ekki staðfest nákvæmni upplýsinga eða hvort upplýsingar og gögn sem Deloitte ehf. hafði aflað væru rétt eða fullnægjandi, þar sem ekki var leitað sérstaklega eftir því. Einnig að þarna séu ábendingar, án þess að hægt sé að draga ályktanir af þeim,“ segir Jón Rúnar. 

Segir Jón að ef Deloitte hefði haft samband við hann og aflað gagna hefði verið hægt að sjá að hvorki hann né Best-hús hefðu haft nokkurn hagnað af byggingu Skessunnar. 

„Allir þeir fjármunir sem FH greiddi til Best-húsa ehf. runnu til framleiðanda og seljanda burðarvirkis og ytra byrðis Skessunnar. Sá kostnaður, að viðbættum kostnaði við flutning vörunnar til landsins, var grundvöllur virðisaukaskatts sem greiddur var við innflutninginn auk annarra gjalda vegna tollafgreiðslu,“ segir Jón Rúnar. 

Segir hann að öllum hlutaðeigandi, þ.e. aðalstjórn FH, forráðamönnum Hafnafjarðarbæjar sem og Deloitte hafi verið gerð grein fyrir því hvernig greiðslum þessum var háttað.  

Aðkoma Best-húsa hagkvæm fyrir félagið 

Þá segir Jón Rúnar að hann hafni því að það hafi verið óeðlilegt eða ósiðlegt að fyrirtæki hans hafi verið milligönguaðili í kaupunum vegna tengsla. 

„Á það skal bent að árið 2018 bauð Hafnarfjarðarbær út byggingu á knatthúsi fyrir FH í Kaplakrika. Í verkið buðu þrír aðilar og voru allir, þar á meðal lægstbjóðandi, með tilboð frá Best-húsum ehf. í burðargrind og ytra byrði hússins sem og hönnun þess. Eins og fram hefur komið í fréttum hætti Hafnarfjarðarbær við útboðið og hafnaði öllum tilboðum. Þegar Hafnarfjarðarbær og FH gerðu með sér samkomulag um að FH myndi byggja húsið lá beinast við að nota sömu lausn og hönnun sem lá til grundvallar þeim tilboðum sem borist höfðu, enda um hagkvæma lausn að ræða,“ segir Jón Rúnar. 

Ræddu við bæinn í upphafi árs 2023

Þá bendir hann á að FH hafi óskað eftir því við bæinn árið 2023 að hann tæki á leigu eða keypti Skessuna. Á grunni þess réð bærinn Deloitte til að verðmeta Skessuna. Í framhaldinu hafi önnur skýrsla verið gerð þar sem Deloitte vann skýrslu um byggingar- og rekstarkostnað knatthússins. Kemur þar athugasemd við aðkomu Best-húsa fram.

„Aðdragandi þessa máls er sá að í upphafi árs 2023 óskaði FH eftir því við bæinn að hann tæki á leigu eða keypti knatthúsið Skessuna, sem félagið hafði reist og tekið í notkun haustið 2019. Var það gert á grundvelli opinberrar stefnu Hafnarfjarðarbæjar um að eiga og reka öll íþróttamannvirki í Hafnarfirði.“

Töldu hag af því að leka skýrslu í fjölmiðla

„Þegar síðari skýrslan lá fyrir, með öllum ofangreindum fyrirvörum, töldu einhverjir sér hag í því að leka henni til valinna fjölmiðla, sem aftur leiddi til þess að Hafnarfjarðarbær lét öllum fjölmiðlum hana í té með þeim afleiðingum sem að ofan greinir,“ segir Jón Rúnar.

„Ég er og hef alla tíð verið FH-ingur, ber hag félagsins ávallt fyrir brjósti og því svíður mig mjög að hafa þurft að sitja undir ásökunum í fjölmiðlum hvað mál þetta varðar,“ segir Jón Rúnar.

Yfirlýsing Jóns Rúnars í heild sinni 

„Í desember síðastliðnum hófu fjölmiðlar umfjöllun um byggingarkostnað Skessunnar sem byggði öll á skýrslu Deloitte ehf. sem unnin var fyrir Hafnarfjarðarbæ vegna fyrirhugaðra kaupa bæjarins á mannvirkinu.

Inn í þá umfjöllun drógust nafn mitt og fyrirtæki mitt Best-hús ehf. og hamrað á því að fyrirtækið hefði fengið greiddar 350 milljónir króna frá FH, og látið að því liggja að ekki væru haldbærar skýringar á þessum greiðslum. Þá er blandað inn í umfjöllunina endurgreiðslum FH á vaxta- og verðbótalausum lánum Best-húsa ehf. til FH sem ekki koma byggingu Skessunnar við á nokkurn hátt.

Í raun sökuðu fjölmiðlar mig og fyrirtæki mitt ranglega um að hafa með ólögmætum eða Í það minnsta ósiðlegum hætti makað krókinn á viðskiptum við FH vegna byggingar Skessunnar. 

Enginn fjölmiðlanna gaf því hins vegar gaum að í skýrslu Deloitte ehf. er þess sérstaklega getið að vinna og verklag við gerð hennar hafi ekki falið í sér staðfestingarvinnu eða geti að nokkru leyti talist grundvöllur endurskoðunar eða áreiðanleikakönnunar. Þá tók Deloitte ehf. fram að félagið gæti ekki staðfest nákvæmni upplýsinga eða hvort upplýsingar og gögn sem Deloitte ehf. hafði aflað væru rétt eða fullnægjandi, þar sem ekki var leitað sérstaklega eftir því. Einnig að þarna séu ábendingar, án þess að hægt sé að draga ályktanir af þeim.

Rétt er að taka fram að Deloitte ehf. hafði aldrei samband við mig til að fá gögn eða skýringar á greiðslum FH til Best-húsa ehf. Hefðu starfsmenn Deloitte ehf. aflað gagna frá Best-húsum ehf. hefðu þeir séð og getað staðreynt að hvorki ég persónulega né Best-hús ehf. höfum haft nokkurn hagnað af byggingu Skessunnar.

Allir þeir fjármunir sem FH greiddi til Best-húsa ehf. runnu til framleiðanda og seljanda burðarvirkis og ytra byrðis Skessunnar. Sá kostnaður, að viðbættum kostnaði við flutning vörunnar til landsins, var grundvöllur virðisaukaskatts sem greiddur var við innflutning auk annarra gjalda vegna tollafgreiðslu.

Rétt er að taka fram að öllum hlutaðeigandi, þ.e. aðalstjórn FH, forráðamönnum Hafnarfjarðarbæjar sem og Deloitte hefur verið gerð grein fyrir því hvernig greiðslum þessum var háttað.

Einnig hefur umfjöllunin verið á þann veg að það sé eitthvað óeðlilegt jafnvel ósiðlegt við að fyrirtæki mitt hafi verið milligönguaðili í þessum kaupum. Á það skal bent að árið 2018 bauð Hafnarfjarðarbær út byggingu á knatthúsi fyrir FH í Kaplakrika. Í verkið buðu þrír aðilar og voru allir, þar á meðal lægstbjóðandi, með tilboð frá Best-húsum ehf. í burðargrind og ytra byrði hússins sem og hönnun þess.

Eins og fram hefur komið í fréttum hætti Hafnarfjarðarbær við útboðið og hafnaði öllum tilboðum. Þegar Hafnarfjarðarbær og FH gerðu með sér samkomulag um að FH myndi byggja húsið lá beinast við að nota sömu lausn og hönnun sem lá til grundvallar þeim tilboðum sem borist höfðu, enda um hagkvæma lausn að ræða. Aðdragandi þessa máls er sá í upphafi árs 2023 óskaði FH eftir því við bæinn að hann tæki á leigu eða keypti knatthúsið Skessuna, sem félagið hafði reist og tekið í notkun haustið 2019. Var það gert á grundvelli opinberrar stefnu Hafnarfjarðarbæjar um að eiga og reka öll íþróttamannvirki í Hafnarfirði.

Hafnarfjarðarbær réð Deloitte ehf. til þess að verðmeta Skessuna. Deloitte ehf. skilaði verðmatsskýrslu í apríl 2024. Samkvæmt henni taldi Deloitte ehf. verðmæti Skessunnar vera á bilinu 1,5 til liðlega 2 milljarðar króna. Hafnarfjarðarbær réð Deloitte ehf. síðan aftur til að vinna nýja skýrslu um byggingar- og rekstrarkostnað Skessunnar. Sú skýrsla lá fyrir í júlí 2024. Þegar síðari skýrslan lá fyrir, með öllum ofangreindum fyrirvörum, töldu einhverjir sér hag í því að leka henni til valinna fjölmiðla, sem aftur leiddi til þess að Hafnarfjarðarbær lét öllum fjölmiðlum hana í té með þeim afleiðingum sem að ofan greinir.

Ég er og hef allt tíð verið FH-ingur, ber hag félagsins ávallt fyrir brjósti og því svíður mig mjög að hafa þurft að sitja undir ásökunum í fjölmiðlum hvað mál þetta varðar.

Jón Rúnar Halldórsson.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert