Knattspyrnumaðurinn Alex Þór Hauksson er genginn til liðs við Stjörnuna, þar sem hann lék lengi vel, frá KR.
Alex Þór, sem er 25 ára miðjumaður, lék aðeins í eitt tímabil með KR eftir að hafa verið hjá Öster í sænsku B-deildinni í þrjú ár þar á undan.
Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Álftanes í fjórðu efstu deild árið 2012, þá einungis tólf ára gamall. Síðar skipti Alex Þór til Stjörnunnar og var í stóru hlutverki hjá liðinu í efstu deild sumarið 2017 þegar hann var aðeins 17 ára gamall.
„Það er gríðarlega gaman að vera kominn heim. Hér hefur mér liðið best, og ég er ákaflega stoltur af því að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að gera Stjörnuna að því sem menn lögðu af stað með.
Það er ótrúlega margt búið að breytast, og það verður frábært fyrir mig að fá að taka þátt í því. Ég hef eins og aðrir tekið eftir þeim breytingum sem hafa átt sér stað og fylgst með af aðdáun yfir þeirri gleði og hugrekki sem einkennir liðið. Það er í einu orði sagt frábært að vera kominn heim,“ sagði Alex Þór í tilkynningu frá knattspyrnudeild Stjörnunnar.
Hann hefur spilað 96 leiki í efstu deild á Íslandi, þar af 72 fyrir Stjörnuna, og alls 167 deildaleiki á ferlinum, 70 þeirra með Öster.