„Þetta var risastórt skref fyrir mig og frábær árangur því ég hafði sett mér það að markmiði að reyna að komast í efstu deild á þremur árum,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, í Dagmálum.
Hannes Þór, sem er fertugur, lagði skóna á hilluna haustið 2021 eftir afar farsælan feril þar sem hann var í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu og fór á tvö stórmót með liðinu.
Hannes Þór gekk til liðs við Fram árið 2007 og lék í fjögur ár með liðinu en hann kom til félagsins frá Stjörnunni sem þá lék í 1. deildinni.
„Ég fór í Fram, haldandi það að ég væri kominn á beinu brautina eftir að hafa fengið mikið hrós fyrir síðustu tímabil,“ sagði Hannes.
„Þetta gekk mjög brösuglega því ég meiðist á undirbúningstímabilinu og er lengi frá. Loksins er svo komið að því að spila og það ríkti mikil eftirvænting fyrir þessum markmanni sem enginn vissi hver var.
Í fyrsta leiknum mínum eru átta sekúndur liðnar af leiknum þegar boltinn er kominn í markið hjá mér, og við byrjuðum með boltann. Ég fæ semsagt sendingu til baka, sparka í mótherja og boltinn endar í markinu.
Það gerðist mjög svipað atvik, stuttu seinna, í leik gegn HK og þá öskrar Ingvar Ólason, miðjumaður Fram, á mig; Þetta er bara eins og í utandeildinni!“ sagði Hannes meðal annars.