Forráðamenn Knattspyrnusambands Íslands eru í viðræðum við forráðamenn Víkings úr Reykjavík vegna Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara liðsins.
Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins.
Arnar, sem er 51 árs gamall, fundaði með forráðamönnum KSÍ á dögunum og vill sambandið ráða Arnar sem næsta þjálfara íslenska karlalandsliðsins.
Arnar á eitt ár eftir af samningi sínum í Víkinni og KSÍ þarf því að borga upp samning þjálfarans í Víkinni til þess að fá hann lausan.
Víkingar mæta Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar en Arnar sjálfur hefur gefið það út að hann hafi áhuga á því að stýra Víkingum í einvíginu.
Framundan hjá karlalandsliðinu eru svo tveir umspilsleikir gegn Kósovó um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar og fara þeir fram í mars.
Það gæti því farið svo að lokaverkefni Arnars í Víkinni verði leikirnir gegn Panathinaikos, áður en hann snýr sér að starfi landsliðsþjálfarans.