Dominique Bond-Flasza, landsliðskona í knattspyrnu frá Jamaíku, hefur samið við Fram um að leika áfram með félaginu á komandi tímabili, sem verður fyrsta tímabil Framkvenna í efstu deild í 37 ár.
Dominique kom til Fram frá Nice í Frakklandi síðasta sumar og lék með liðinu á lokaspretti 1. deildarinnar þar sem það tryggði sér óvænt sæti í Bestu deildinni.
Hún hefur reynslu af Bestu deildinni eftir að hafa leikið þar eitt tímabil með Tindastóli en hún lék alla 18 leiki Skagfirðinga í deildinni árið 2021. Dominique kom aftur til landsins árið 2023 og lék þá 17 af 18 leikjum Grindvíkinga í 1. deild.
Hún á að baki 26 landsleiki fyrir Jamaíku og lék með liðinu á HM 2019.