Víkingar eru búnir að komast að samkomulagi við HK um kaup á Atla Þór Jónassyni, framherjanum hávaxna, og væntanlega verður gengið frá samningum síðar í dag.
Hjörvar Hafliðason skýrði frá þessu á X og mbl.is hefur fengið staðfest að málið sé nánast í höfn hjá félögunum.
Atli Þór er 22 ára gamall og hefur leikið með HK í Bestu deildinni undanfarin tvö ár en áður með Hamri í Hveragerði.
Hann skoraði sjö mörk fyrir HK í 24 leikjum í deildinni á síðasta tímabili og var annar tveggja markahæstu leikmanna Kópavogsliðsins. Alls hefur hann skorað átta mörk í 40 leikjum í efstu deild á undanförnum tveimur árum.
Atli skoraði öll fjögur mörk HK þegar liðið gerði jafntefli, 4:4, við Víking í æfingaleik í vetur.
Atli er þriðji íslenski leikmaðurinn sem Víkingar fá í vetur en áður höfðu þeir fengið Daníel Hafsteinsson og Svein Margeir Hauksson frá KA.