Arnar lauk ferlinum hjá Þorvaldi

Arnar Gunnlaugsson í leik með Fram gegn Þór árið 2011.
Arnar Gunnlaugsson í leik með Fram gegn Þór árið 2011. mbl.is/Árni Sæberg

Arnar Gunnlaugsson, sem í kvöld var ráðinn þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, lauk sínum ferli sem leikmaður undir stjórn Þorvalds Örlygssonar, núverandi formanns KSÍ.

Þorvaldur fékk Arnar til að koma til liðs við Fram árið 2011, þegar Arnar var 38 ára gamall, og hann lék þar sitt 23. og síðasta tímabil í meistaraflokki.

Þorvaldur var ekki svikinn af Arnari sem endaði sem markahæsti leikmaður Fram í úrvalsdeildinni þetta ár með 7 mörk og lék samt aðeins 14 af 22 leikjum liðsins, sem þá hafði aðsetur í Safamýri og var með Laugardalsvöllinn sem sinn heimavöll.

Laugardalsvöllurinn verður einmitt heimavöllur Arnars í nýju starfi sem landsliðsþjálfari Íslands.

Þetta var annað árið í röð sem Arnar varð markahæsti leikmaður í sínu liði í úrvalsdeildinni en hann skoraði átta mörk fyrir Hauka árið 2010. Fyrir vikið er hann markahæsti leikmaðurinn í sögu Hauka í efstu deild karla.

Léku saman með landsliðinu

Þorvaldur og Arnar áttu samleið áður þegar báðir léku með íslenska landsliðinu. Fyrst léku þeir saman vináttulandsleik gegn Bandaríkjunum árið 1993, sem endaði 1:1, og síðasti leikur þeirra saman var leikur gegn Ungverjalandi á útivelli árið 1995, í undankeppni EM, en hann tapaðist 1:0. Það var jafnframt 41. og síðasti landsleikur Þorvalds.

Arnar er sjö árum yngri en Þorvaldur og átti eftir að leika fyrir Íslands hönd í átta ár til viðbótar. Hann spilaði samtals 32 landsleiki.

Þorvaldur Örlygsson þjálfaði Fram frá 2008 til 2013.
Þorvaldur Örlygsson þjálfaði Fram frá 2008 til 2013. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert