Heimavallarmálin í lausu lofti hjá Víkingum

Óvíst er hvar Víkingar spila heimaleik sinn í umspili Sambandsdeildarinnar.
Óvíst er hvar Víkingar spila heimaleik sinn í umspili Sambandsdeildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur úr Reykjavík mun ekki spila heimaleik sinn gegn Panathinaikos í umspili Sambandsdeildarinnar í knattspyrnu á Kaupmannahafnarsvæðinu í Danmörku.

Þetta tilkynnti Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings, í samtali við mbl.is í dag.

Til stóð að Víkingar myndu spila heimaleik sinn á heimavelli danska úrvalsdeildarfélagsins Nordsjælland en af því verður ekki.

Ástæðan tengd öryggismálum

Ástæðan fyrir því að leikurinn getur ekki farið fram á Kaupmannahafnarsvæðinu er fyrst og fremst tengd öryggismálum.

Köbenhavn mætir Heidenheim frá Þýskalandi í umspili Sambandsdeildarinnar á sama tíma í Kaupmannahöfn og Víkingar fengu af þeim sökum ekki leyfi hjá UEFA til þess að spila á sama tíma, á sama svæði.

Forráðamenn Víkings vinna nú hörðum höndum að því að finna nýjan leikstað fyrir heimaleikinn sem fer fram þann 12. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert