Knattspyrnumaðurinn Andri Fannar Stefánsson hefur skrifað undir nýjan samning við uppeldisfélag sitt KA sem gildir út þetta ár.
Andri Fannar er 33 ára miðjumaður og bakvörður sem hefur leikið með KA frá árinu 2019 og varð bikarmeistari með liðinu á síðasta tímabili.
Þar á undan hafði hann leikið með Val frá árinu 2010 en ferilinn hóf hann ungur að árum með KA. Alls hefur Andri Fannar leikið 198 leiki í efstu deild og skorað tvö mörk. Þá á hann 67 leiki að baki í 1. deild og skoraði í þeim tíu mörk.
„Það eru frábærar fréttir að við munum halda Andra áfram innan okkar raða en afar spennandi sumar er framundan hjá bikarmeisturum KA þar sem liðið tekur aftur þátt í Evrópukeppni,“ sagði á heimasíðu félagsins.