Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, minntist Ellerts B. Schrams, fyrrverandi formanns sambandsins frá 1973 til 1989, á samfélagsmiðlum sínum í dag en hann lést í nótt, 85 ára að aldri.
Hann varð Íslandsmeistari í fótbolta með KR árin 1959, 1961, 1963, 1965 og 1968, og bikarmeistari 1960, 1961, 1962, 1963, 1964, 1966 og 1967. Hann var lengi markahæsti KR-ingur frá stofnun félagsins, eða allt til 2019 er Óskar Örn Hauksson sló metið.
Ellert lék 23 A-landsleiki á árunum 1959 til 1970, var sæmdur titlinum knattspyrnumaður ársins, 1965, 1969, 1970 og 1971, sat í stjórn knattspyrnudeildar KR 1960-69 og var formaður síðustu tvö árin.
Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og gullmerki KR, var heiðursformaður KSÍ, heiðursforseti ÍSÍ og heiðursfélagi KR síðan 2019. Þá sat hann í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, frá 1982 til 1986 og frá 1990 til 1994. Hann var einn af varaforsetum UEFA frá 1984 til 1986 og gegndi áhrifastörfum fyrir UEFA allt til ársins 2010.
„Hvíldu í friði,“ segir meðal annars í færslu KSÍ og sem lét hjarta fylgja með sem tjákn.