Forráðamenn Vals höfnuðu tilboði Víkings úr Reykjavík í knattspyrnumanninn Gylfa Þór Sigurðsson í nóvember á síðasta ári.
Gylfi Þór, sem er 35 ára gamall, gekk til liðs við Valsmenn fyrir síðasta keppnistímabil og skoraði ellefu mörk í 19 leikjum með liðinu í Bestudeildinni.
Fótbolti.net spurði Gylfa Þór út í tilboð Víkinga eftir tap Valsmanna gegn KR í úrslitum Reykjavíkurmótsins í Egilshöllinni á dögunum.
„Þetta var ekki í mínum höndum,“ sagði Gylfi Þór í samtali við fótbolta.net.
„Þetta var í höndum forráðamanna Vals og það var þeirra að annaðhvort hafna því eða samþykkja það,“ sagði Gylfi sem var því næst spurður að því hvort hann hefði verið pirraður þegar Valsmenn höfnuðu tilboði Víkinga.
„Nei, alls ekki,“ bætti Gylfi Þór við í samtali við fótbolta.net.