Bandaríska knattspyrnukonan Katie Cousins er gengin til liðs við Þrótt í Reykjavík á nýjan leik eftir að hafa leikið með Val á síðasta tímabili, og hefur samið við félagið til tveggja ára.
Katie er 28 ára miðjumaður sem hefur sett svip sinn á Bestu deildina undanfarin ár. Hún lék fyrst með Þrótti árið 2021 og svo aftur 2023 en var í millitíðinni eitt ár í röðum bandaríska atvinnuliðsins Angel City.
Hún fór síðan frá Þrótti til Vals fyrir síðasta tímabil og varð bikarmeistari með liðinu en hún lék 21 af 23 leikjum í deildinni og skoraði tvö mörk.
Samtals hefur Katie leikið 58 leiki í Bestu deildinni og skorað í þeim 13 mörk.
Á dögunum kom fram að Valur hefði ákveðið að semja ekki áfram við Katie og kom sú ákvörðun mörgum verulega á óvart enda um að ræða einn af sterkustu erlendu leikmönnunum sem hafa leikið hér á landi.