Víkingar lögðu HK - tíu mörk á Selfossi

Danijel Dejan Djuric skoraði seinna mark Víkings.
Danijel Dejan Djuric skoraði seinna mark Víkings. mbl.is/Eyþór Árnason

Víkingur lagði HK að velli, 2:0, í kvöld í fyrsta leik sínum í deildabikarkeppni karla í knattspyrnu, viku fyrir stórleikinn gegn Panathinaikos frá Grikklandi sem fram fer í Helsingi 13. febrúar.

Leikurinn, sem fram fór á Víkingsvellinum, var markalaus fram í miðjan síðari hálfleik en þá skoruðu Daníel Hafsteinsson og Danijel Dejan Djuric með tveggja mínútna millibili, 2:0, og þar við sat.

Víkingar misstu nýja varnarmanninn Róbert Frosta Þorkelsson meiddan af velli eftir aðeins sex mínútna leik.

Á Selfossi gerðu 1. deildarlið Selfoss og Leiknis úr Reykjavík ótrúlegt tíu marka jafntefli, 5:5. Frosti Brynjólfsson, sem kom til Selfyssinga frá Haukum, skoraði þrennu í sínum fyrsta mótsleik og þeir Brynjar Bergsson og Daði Kolviður Einarsson skoruðu hin tvö mörk Selfyssinga.

Grindvíkingurinn Dagur Ingi Hammer var líka drjúgur í sínum fyrsta leik í keppninni með Leikni og skoraði tvö mörk en hin gerðu Sindri Björnsson, Karan Gurung og Shkelzen Veseli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert