Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur tilkynnt 23 manna hóp fyrir tvo fyrstu leiki Íslands í Þjóðadeild UEFA síðar í þessum mánuði.
Íslenska liðið leikur í Sviss föstudaginn 21. febrúar og í Frakklandi 25. febrúar en Noregur er fjórða liðið í þessum riðli í A-deild keppninnar.
Dagný Brynjarsdóttir frá West Ham, ein reyndasta landsliðskona Íslands, kemur inn í hópinn á ný eftir tveggja ára fjarveru en hún lék síðast með liðinu í vináttuleik gegn Sviss í apríl 2023. Það var hennar 113. landsleikur.
Tvo miðjumenn vantar í hópinn, Hildi Antonsdóttur frá Madrid CFF og Selmu Sól Magnúsdóttur frá Rosenborg, en þær eru meiddar. Þær léku báðar þrettán af fjórtán landsleikjum Íslands á síðasta ári. Selma þurfti að gangast undir aðgerð í gær og verður frá keppni í sex til átta vikur og Hildur er úr leik í þrjár til fjórar vikur vegna tognunar.
Þá er Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir ekki í hópnum en í stað þeirra þriggja koma Dagný, Guðný Árnadóttir og Andrea Rán Hauksdóttir. Tæp fjögur ár eru síðan Andrea lék síðast með landsliðinu, eða sumarið 2021. Guðný missti af leikjunum við Kanada og Danmörku í vetur vegna meiðsla.
Hópurinn er þannig skipaður:
Markverðir:
13/0 Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Inter Mílanó
12/0 Telma Ívarsdóttir, Rangers
8/0 Fanney Inga Birkisdóttir, Häcken
Varnarmenn:
132/11 Glódís Perla Viggósdóttir, Bayern München
68/1 Ingibjörg Sigurðardóttir, Bröndby
45/1 Guðrún Arnardóttir, Rosengård
34/0 Guðný Árnadóttir, Kristianstad
13/0 Sædís Rún Heiðarsdóttir, Vålerenga
8/1 Natasha Anasi, Val
Miðjumenn:
113/38 Dagný Brynjarsdóttir, West Ham
49/6 Alexandra Jóhannsdóttir, Kristianstad
47/10 Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Leverkusen
23/2 Amanda Andradóttir, Twente
15/1 Berglind Rós Ágústsdóttir, Val
14/1 Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Bröndby
12/2 Andrea Rán Hauksdóttir, Tampa Bay Sun
4/0 Katla Tryggvadóttir, Kristianstad
Sóknarmenn:
47/6 Sandra María Jessen, Þór/KA
44/12 Sveindís Jane Jónsdóttir, Wolfsburg
43/6 Hlín Eiríksdóttir, Leicester
19/2 Diljá Ýr Zomers, OH Leuven
7/1 Bryndís Arna Níelsdóttir, Växjö
4/0 Emilía Kiær Ásgeirsdóttir, RB Leipzig