Hildur Antonsdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir missa af leikjunum tveimur gegn Sviss og Frakklandi í Þjóðadeildinni í knattspyrnu en Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tilkynnti í dag 23 manna hóp fyrir leikina.
Selma þurfti að gangast undir aðgerð í gær og verður frá keppni í sex til átta vikur og Hildur er úr leik í þrjár til fjórar vikur vegna tognunar, að sögn Þorsteins sem kynnti hópinn á fréttamannafundi í dag.
Þær Hildur og Selma voru báðar í stórum hlutverkum á miðjunni hjá íslenska landsliðinu á síðasta ári og spiluðu báðar þrettán af fjórtán landsleikjum ársins. Hildur var tíu sinnum í byrjunarliði Íslands á árinu 2024 og Selma níu sinnum.
Hildur leikur með Madrid CFF á Spáni og missir af næstu leikjum þar. Selma leikur með Rosenborg í Noregi og er þar á undirbúningstímabili. Keppni í norsku úrvalsdeildinni hefst 21. mars og því er hætta á að hún missi af fyrstu leikjum liðsins.