Bikarmeistarar Vals unnu sannfærandi sigur á Fram, 6:0, á heimavelli sínum á Hlíðarenda í fyrstu umferð í deildabikar kvenna í fótbolta í kvöld. Fram verður nýliði í efstu deild á komandi leiktíð.
Natasha Anasi, Jasmín Erla Ingadóttir og Fanndís Friðriksdóttir skoruðu allar á síðasta stundarfjórðungnum í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 3:0.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir gerði fjórða markið á 53. mínútu og hin unga Arnfríður Auður Arnarsdóttir gerði tvö mörk í uppbótartíma.
Íslandsmeistarar Breiðabliks sigruðu Keflavík í Reykjaneshöllinni, 2:0. Karítas Tómasdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir skoruðu mörk Breiðabliks.
Miðjukonan Rakel Hönnudóttir, sem lék síðast í efstu deild árið 2022, var í markinu hjá Breiðabliki í leiknum.