Daninn Patrick Pedersen skoraði þrennu í 4:0-sigri Vals gegn Fjölni í riðli eitt í deildabikar karla í knattspyrnu.
Patrick skoraði fyrstu þrjú mörk Vals en varamaðurinn Kristján Oddur Kristjánsson bætti við fjórða marki Vals í uppbótartíma.
Þróttur hafði betur gegn Grindavík, 3:2, í riðli eitt í deildabikarnum í knattspyrnu í dag.
Staðan var 2:2 í hálfleik en Adam Árni Róbertsson skoraði bæði mörk Grindvíkinga á meðan Aron Snær Ingason og Kári Kristjánsson skoruðu fyrir Þrótt. Það var síðan hinn ungi Jakob Gunnar Sigurðsson sem skoraði sigurmark Þróttara en hann gekk til liðs við Þrótt í vikunni á láni frá KR.
ÍA og Vestri gerðu 2:2-jafntefli í riðli eitt á Akranesi í dag. Vladimir Tufegdzic skoraði bæði mörk Vestra en Erik Tobias Sandberg og Jón Gísli Eyland skoruðu mörk Skagamanna.
Fram er á toppi riðils tvö í deildabikar karla í knattspyrnu eftir 3:1-sigur gegn Völsung í Úlfarsárdalnum í dag.
Staðan var 1:0 í hálfleik fyrir Fram en Magnús Þórðarson skoraði mark Framara. Davíð Örn Aðalsteinsson, leikmaður Völsungs, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 55. mínútu og Alex Freyr Elísson gerði þriðja mark Fram aðeins sex mínútum síðar.
Elfar Árni Aðalsteinsson minnkaði muninn í 3:1 á 82. mínútu með marki úr vítaspyrnu.
Breiðablik og Fylkir skildu jöfn, 1:1, í riðli tvö í Kópavogi í dag. Óli Valur Ómarsson skoraði mark Breiðabliks en Þóroddur Víkingsson skoraði mark Fylkis.
Stjarnan hafði betur gegn ÍBV, 3:2, í riðli fjögur í Garðabænum í dag. Emil Atlason, Guðmundur Baldvin Nökkvason og Örvar Eggertsson skoruðu mörk Stjörnunnar en Oliver Heiðarsson skoraði bæði mörk ÍBV.
Að lokum vann Afturelding sannfærandi 4:0-sigur gegn Þór Akureyri í riðli fjögur. Hrannar Snær Magnússon skoraði þrennu og Aron Jóhannsson skoraði eitt.