Þór/KA vann algjöran yfirburðasigur á Tindastóli, 9:0, þegar Norðurlandsliðin sem bæði leika í Bestu deild kvenna í fótbolta mættust í deildabikarnum í Boganum á Akureyri í gær.
Þór/KA hafnaði í fjórða sæti Bestu deildarinnar í fyrra og Tindastóll í áttunda sæti og gerðu þá m.a. 3:3-jafntefli sín á milli.
Í gær voru úrslitin hins vegar ráðin í hálfleik þegar staðan var 5:0. Sandra María Jessen og Margrét Árnadóttir skoruðu sína þrennuna hvor fyrir Þór/KA og þær Karen María Sigurgeirsdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir skoruðu sitt markið hver.
Þetta var fyrsti leikur beggja liða í A-deildinni en stórar tölur voru einnig í hinum leikjum 1. riðils deildarinnar því Valur vann Fram 6:0 og Þróttur R. vann Fylki 7:1.