Sverrir Ingi Ingason og liðsfélagar hans hjá gríska liðinu Panathinaikos mæta Víkingi úr Reykjavík í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í Helsinki, höfuðborg Finnlands, á fimmtudagskvöldið.
Landsliðsmaðurinn er afar spenntur fyrir því að mæta íslensku liði í fyrsta skipti á atvinnumannsferlinum.
„Þetta er virkilega skemmtilegt og þegar ég sá að það væri möguleiki að spila við íslenskt lið varð ég spenntur,“ sagði Sverrir Ingi í samtali við Morgunblaðið. Hann er ánægður með að íslenskt lið sé komið svo langt í Evrópukeppni.
„Það er frábært að mæta íslensku liði á þessu stigi í Evrópukeppni og virkilega gott að Víkingarnir séu komnir svona langt. Það var mikið afrek að komast úr þessari deildarkeppni. Það sýnir hversu langt sum íslensk knattspyrnulið eru komin. Úrslitin sem Víkingarnir náðu í deildarkeppninni voru virkilega góð. Þeir hafa sýnt að íslensk lið eru orðin samkeppnishæf í svona keppnum og það er frábært,“ sagði miðvörðurinn.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.