ÍA hafði betur gegn Fram í fyrstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Úlfarsárdal í kvöld.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og bæði lið fengu ágætis færi. Vuk Oskar Dimitrijevic stal boltanum af Árna Marínó eftir aðeins tíu mínútur og sendi boltann fyrir Kennie Chopart sem átti skot í varnarmann. Fram tók tvær hættulegar hornspyrnur í röð sem fóru í átt að marki og áttu nokkrar fyrirgjafir en ekkert gekk upp hjá heimamönnum í fyrri hálfleik.
ÍA fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan d-bogann á 26. mínútu. Rúnar Már Sigurjónsson stillti sér upp, smellti boltanum í samskeytin og staðan var 1:0 fyrir gestunum í hálfleik.
Skagamenn byrjuðu seinni hálfleik á hættulegri sókn. Jón Gísli Eyland Gíslason kom með hættulega fyrirgjöf á Viktor sem skallaði boltann fram hjá. Eftir það skiptust liðin á hálffærum og lítið var um að vera.
Fram var meira með boltann en sköpuðu sér ekki góð færi. Gestirnir voru þéttir fyrir, sterkari í teignum og Framarar vissu ekki hvert þeir ætluðu á lokaþriðjung vallarins. Þeim tókst að skapa hættu undir lok leiks þegar Guðmundur Magnússon kom inn á. Hann lét vaða á markið af stuttu færi eftir hornspyrnu en Árni Marínó varði vel. Undir lok leiks átti Már Ægisson fínt skot á markið en aftur varði Árni og leikurinn endaði 1:0 fyrir ÍA.