KA og KR skildu jöfn, 2:2, í fyrstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á velli KA-manna á Akureyri í dag.
Leikurinn byrjaði fjöruglega og KR náði forystunni strax á 10. mínútu þegar Luke Rae fékk sendingu frá Atla Sigurjónssyni inn fyrir vörn KA og vippaði boltanum yfir Steinþór Má Auðunsson í markinu, 0:1.
Þetta kveikti í KA-mönnum og Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði fyrir KA á 24. mínútu. Hans Viktor Guðmundsson sendi þá boltann inn í vítateig KR þar sem Bjarni Aðalsteinsson stýrði honum með brjóstkassanum á Ásgeir sem sendi hann í hægra hornið, 1:1.
KA komst síðan yfir á 32. mínútu þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson tók hornspyrnu frá vinstri. Ásgeir skallaði boltann áfram inn í markteiginn þar sem Hans Viktor skoraði með skalla, 2:1 fyrir KA.
En KR-ingar náðu að jafna með glæsilegu marki fyrir hlé því á 43. mínútu fékk Jóhannes Kristinn Bjarnason boltann frá Finni Tómasi Pálmasyni og skaut fallegu skoti af 20 metra færi efst í vinstra markhornið, 2:2.
Talsvert hægðist á leiknum í síðari hálfleik, mikið um klaufasendingar og ekki mikið að gerast. Þreyta var sjáanleg á leikmönnum þegar á leið.
Jóhannes var nærri því að koma KR yfir á 64. mínútu þegar hann átti laglegt skot í innanverða stöngina á marki KA.
KR-ingar urðu fyrir áfalli á 88. mínútu þegar Aron Sigurðarson, fyrirliði þeirra, fékk rauða spjaldið fyrir að slá til Andra Fannars Stefánssonar, miðjumanns KA.
Ekki nóg með það því Hjalti Sigurðsson, varnarmaður KR, fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða í uppbótartímanum og Vesturbæingar luku því leiknum með níu leikmenn gegn ellefu.