Luiz Felipe Scolari, landsliðsþjálfari Portúgala í knattspyrnu, bað portúgölsku þjóðina í kvöld afsökunar á því að hafa ekki tekist að leiða Portúgal til sigurs á Evrópumótinu í knattspyrnu sem lauk í kvöld með því að Grikkir sigruðu Portúgali, 1:0, í úrslitaleik í Lissabon.
„Það er erfitt að sætta sig við þetta en það verðum við að gera. Þeir léku varnarleik. Þeir unnu vegna þess að þeir kunna það vel," sagði Scolari.
„Ég vil biðjast afsökunar fyrir hönd alls liðsins á því að takast ekki að veita öllum Portúgölum, sem hafa stutt okkur, þá ánægju að vinna þessa Evrópukeppni," sagði Scolari.
Hann tilkynnti í síðustu viku, að hann hefði framlengt samning sinn um að þjálfa portúgalska landsliðið um tvö ár fram yfir heimsmeistarakeppnina árið 2006. Hefði Portúgal unnuð EM hefði Scolari orðið fyrsti þjálfarinn til að vinna bæði Evrópumót og heimsmeistaramót með mismunandi liðum en hann leiddi Brasilíumenn til sigurs á HM árið 2002.