Hólmar: Beita öflugum skyndisóknum og verjast vel

Hólmar Örn Eyjólfsson mun væntanlega standa vaktina í miðri vörn Íslands þegar íslenska U21 ára liðið hefur þátttöku í úrslitakeppni Evrópumótsins á morgun. Fyrsti leikur liðsins er á móti Hvít-Rússum sem Hólmar segir að séu með öflugt lið.

,,Við erum búnir að undirbúa okkur vel og fara vel yfir lið Hvít-Rússa. Þeir eru með lið sem gefst aldrei upp svo við þurfum að taka vel á þeim og sýna mikla hlaupagetu. Þetta er stutt mót og því er mikilvægt að byrja það vel og það ætlum við okkur að gera. Við þurfum að beita öflugum skyndisóknum og verjast vel eins og við gerðum í undankeppninni og fyrsta markmiðið er að komast í undanúrslitin,“ sagði Hólmar Örn við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert