Hver er Arnór Ingvi Traustason?

Arnór Ingvi Traustason í þann mund að skora fram hjá …
Arnór Ingvi Traustason í þann mund að skora fram hjá Robert Almer, markverði Austurríkis. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þegar varamaður númer 21 sendi boltann í mark Austurríkis og tryggði Íslandi sigurinn magnaða, 2:1, með síðustu spyrnu lokaleiks F-riðilsins á EM í fótbolta á Stade de France í gærkvöld spurðu erlendir fjölmiðlar hver í kapp við annan: Hver er þessi nýja hetja í íslenska liðinu?

Og eflaust hafa margir Íslendingar spurt að því sama.

Arnór Ingvi Traustason átti frábæra innkomu í þennan fyrsta leik sinn á stórmóti. Honum var skipt inn á þegar tíu mínútur voru eftir en byrjunin var ekki góð. Arnór fór beint inn í eigin vítateig til að hjálpa til í varnarleiknum og þar steinlá hann eftir árekstur við Austurríkismann og þurfti að fá aðhlynningu.

En þetta högg virtist bara efla þennan 23 ára gamla Njarðvíking sem var óhemjuduglegur það sem eftir lifði leiks, hélt boltanum framarlega á vellinum á meðan dýrmætar sekúndur liðu, og skoraði svo þetta mark í blálokin sem hreinlega varð til þess að íslenska þjóðin gekk af göflunum. Á Stade de France, þar sem hluti hennar var mættur til að styðja strákana, og heima á Íslandi.

Birkir Bjarnason og Arnór Ingvi Traustason fagna markinu.
Birkir Bjarnason og Arnór Ingvi Traustason fagna markinu. AFP

Þeir sem til þekkja eru kannski ekki eins hissa og hinn almenni Íslendingur sem þekkir Gylfa, Birki, Aron, Hannes, Kolbein og einhverja í viðbót en einhverjir höfðu eflaust ekki heyrt um Arnór Ingva Traustason getið þegar Evrópukeppnin hófst.

Sló í gegn með Keflavík og svo í Svíþjóð

Arnór tók engan þátt í undankeppni Evrópumótsins. Eftir að hann var kjörinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins 2013 fyrir frammistöðu sína með Keflvíkingum gerðist hann atvinnumaður í Svíþjóð þar sem hann gekk til liðs við Norrköping.

Arnór festi sig ágætlega í sessi á fyrsta ári en sprakk svo út keppnistímabilið 2015. Þá varð Norrköping sænskur meistari, mjög óvænt, og Arnór var í lykilhlutverki hjá liðinu en hann lagði upp flest mörk allra leikmanna í sænsku úrvalsdeildinni og skoraði úrslitamarkið í lokaumferðinni sem tryggði Norrköping meistaratitilinn.

Arnór Ingvi Traustason fagnar í leikslok á Stade de France.
Arnór Ingvi Traustason fagnar í leikslok á Stade de France. AFP

Þessi frammistaða Arnórs varð til þess að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson ákváðu að gefa honum tækifæri í vináttulandsleikjum gegn Póllandi og Slóvakíu í nóvember. Hann var þó ekki nýgræðingur hvað landslið varðar, eftir að hafa leikið með 21-árs landsliði Íslands síðustu ár.

Frábær byrjun með landsliðinu

Frá áramótum hefur Arnór stigið hvert skrefið á fætur öðru. Hann tryggði Íslandi sigur á Finnlandi, 1:0, í fyrsta vináttulandsleik ársins í janúar. Í mars komu tveir lykilleikir í undirbúningi landsliðsins fyrir EM þar sem leikið var við Dani og Grikki. Arnór lét til sín taka en hann skoraði mark Íslands í 2:1 ósigri gegn Dönum í Herning og gerði eitt markanna í 3:2 sigri á Grikkjum í Piraeus nokkrum dögum síðar.

Arnór Ingvi Traustason í leiknum við Liechtenstein rétt fyrir EM.
Arnór Ingvi Traustason í leiknum við Liechtenstein rétt fyrir EM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þar með var Arnór kominn með afar athyglisverðar tölur í A-landsleikjum – var búinn að skora 3 mörk í fyrstu sex landsleikjunum. Og hann er ekki framherji, athugið það. Arnór leikur yfirleitt sem kantmaður og er þá jafnvígur hvort sem hann leikur hægra megin eða vinstra megin á vellinum, en hjá Norrköping hefur hann líka spilað sem fremsti miðjumaður.

Vísbending frá Lars og Heimi

Þessi frammistaða Arnórs leiddi til þess að Lars og Heimir völdu hann í 23 manna hópinn fyrir EM sem þeir tilkynntu 9. maí. Njarðvíkingurinn var þar með kominn á stóra sviðið.

Arnór var í byrjunarliði Íslands í síðasta leiknum fyrir EM, 4:0 sigrinum gegn Liechtenstein á Laugardalsvellinum 6. júní. Birkir Bjarnason var hvíldur vegna smávægilegra meiðsla og með því að stilla Arnóri upp gáfu Lars og Heimir vísbendingu um að honum gæti verið ætlað hlutverk þegar á hólminn væri komið í Frakklandi.

Fjölskyldan fór heim fyrir Austurríkisleikinn

Arnór kom ekkert við sögu gegn Portúgal og ekki gegn Ungverjalandi í fyrstu tveimur leikjunum á EM. Fjölskylda hans var mætt til Frakklands og fylgdist með þessum leikjum en hélt heimleiðis í gær, fyrir leikinn gegn Austurríki, þar sem litli bróðir hans var á leið á pollamótið vinsæla í Vestmannaeyjum.

Arnór Ingvi Traustason í leiknum við Grikki í mars þar …
Arnór Ingvi Traustason í leiknum við Grikki í mars þar sem hann skoraði í 3:2 sigri Íslands. AFP

Þau hafa vonandi náð að fylgjast með í sjónvarpinu þegar Arnór kom inn á og þegar hann skoraði markið dýrmæta, eftir hinn mikla sprett annars varamanns, Elmars Bjarnasonar, upp allan völlinn, og tryggði Íslandi annað sætið í riðlinum og leik gegn Englendingum í Nice næsta mánudagskvöld. Hans fjórða mark í fyrstu átta landsleikjunum og fáir hafa byrjað landsliðsferilinn betur.

Á leiðinni til Vínarborgar

Eftir úrslit gærkvöldsins í Saint-Denis er nafn Arnórs á allra vörum. Ekki síst í Austurríki þar sem knattspyrnan er í sárum í dag eftir vonbrigðin á Evrópumótinu. Og Arnór boðaði einmitt með þessu ógleymanlega marki komu sína til Vínarborgar á eftirminnilegan hátt. Hann samdi nefnilega í síðasta mánuði við gamla austurríska stórveldið Rapid Vín sem keypti hann af Norrköping fyrir rúmlega 300 milljónir íslenskra króna, og mætir á nýjan vinnustað í Vín fljótlega eftir að Evrópukeppninni lýkur. Hvernig honum verður tekið þar á eftir að koma í ljós!

mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin