Ísland áfram eftir sögulegan sigur

Ísland er á meðal átta bestu knattspyrnuþjóða í Evrópu. Það er ljóst eftir sögulegan sigur á Englandi þegar þjóðirnar mættust í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í Nice í kvöld. Lokatölur 2:1 og íslenska landsliðið heldur áfram að skrifa nýja kafla í sögu sína. Ísland mætir gestgjöfum Frakklands í París í átta liða úrslitunum á sunnudag.

Byrjunin á leiknum er sannarlega ein sú svakalegasta sem undirritaður hefur orðið vitni að. Strax á þriðju mínútu fengu Englendingar vítaspyrnu, þegar Hannes Þór Halldórsson felldi Raheem Sterling innan teigs. Á punktinn steig Wayne Rooney og skoraði, en Hannes var í boltanum sem var hins vegar alveg út við stöng. 1:0 og byrjunin algjör martröð.

En það átti sannarlega eftir að breytast. Og það fljótt. Aðeins þremur mínútum síðar ærðist íslenska stúkan þegar Ragnar Sigurðsson, sem í kvöld spilaði sinn 60. landsleik og steig vart feilspor, jafnaði metin. Aron Einar Gunnarsson tók þá langt innkast, Kári Árnason fleytti boltanum áfram á Ragnar sem skoraði af markteig. Staðan 1:1 og aðeins sex mínútur liðnar.

England var miklu meira með boltann en á 18. mínútu reyndi Ísland að byggja upp sókn. Gylfi Þór Sigurðsson fékk boltann við vítateigsbogann, kom honum inn á Jón Daða Böðvarsson sem lagði hann fyrir fætur Kolbeins Sigþórssonar. Kolbeinn var aðþrengdur í teignum en náði samt skoti á markið sem ekki var fast. Joe Hart, markvörður Englendinga, misreiknaði sig hins vegar illilega og boltinn lak í netið. Staðan 2:1 fyrir Ísland.

Íslenskir áhorfendur sannarlega ærðust á meðan þeir ensku, sem voru mun fjölmennari, settu hljóðan. England einokaði nánast boltann það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins og áttu nokkur skot sem ekki rötuðu þó í netið. Hannes varði einu sinni meistaralega frá Harry Kane, en annars virtist þeir ensku ráðalausir. Staðan 2:1 í hálfleik fyrir Ísland.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik – England var mikið mun meira með boltann og pressaði stíft en það gekk hins vegar ekkert upp hjá þeim þegar íslenski vítateigurinn nálgaðist. Þegar líða tók á leikinn fór svo pirringurinn að ágerast hjá þeim ensku, á meðan íslensku leikmennirnir hlupu um allan völl og börðust sem einn maður.

Svoleiðis gekk leikurinn allt til enda. Íslenska liðið sýndi ótrúlegan vilja og dug gegn þeim ensku og úr varð hreint út sagt magnaður sigur, 2:1. Ísland er komið áfram og heldur því áfram að skrifa söguna. Næsti kafli tekur við í París á sunnudag þegar mótherjinn er gestgjafar Frakka í átta liða úrslitum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en ítarlega verður fjallað um leikinn hér á vefnum í allt kvöld sem og í Morgunblaðinu á morgun.

England 1:2 Ísland opna loka
90. mín. Að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin