Ståle Solbakken, þjálfari danska knattspyrnuliðsins FCK Kaupmannahöfn, segist gjarnan vilja fá Ragnar Sigurðsson aftur til liðsins. Ragnar lék um þriggja ára skeið með FCK en yfirgaf liðið snemma árs 2014 þegar hann var seldur til rússneska liðsins Krasnodar.
Solbakken segist hafa rætt við Ragnar um hugsanlega endurkomu hans og Ragnar hafi verið jákvæður. Ragnar er samningsbundinn Krasnodar fram til ársins 2018.
„Eftir því sem á líður Evrópukeppnina dregur nú frekar úr líkunum á að Ragnar komi til FCK í bráð,“ skrifar Solbakken m.a. í pistli sínum í danska blaðið BT.
Ragnar skoraði jöfnunarmarkið í leik Íslands og Englands í Nice í fyrradag.
Frétt mbl.is: Leicester og Tottenham með Ragnar í sigtinu
Englandsmeistarar Leicester og Tottenham eru einnig meðal þeirra liða sem einnig hafa sýnt áhuga á að fá Ragnar til liðs við sig.
Enska blaðið Guardian greinir frá áhuga ensku úrvalsdeildarliðanna. Þá er Liverpool einnig á hliðarlínunni og líklega yrði það draumur fyrir Ragnar að spila með Liverpool en það er félagið sem hann hefur haldið með frá unga aldri.
Ragnar hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína á EM og ekki síst eftir frábæran leik á móti Englendingum í fyrrakvöld þar sem hann var útnefndur besti leikmaðurinn.
En það eru fleiri lið á höttunum eftir Ragnari. Guardian greinir frá því að þýsku liðin Schalke og Wolfsburg hafi sett sig í samband við Krasnodar en talið er að verðmiðinn á Ragnari sé 5 milljónir evra sem jafngildir 690 milljónum króna.