Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var spurður að því á fréttamannafundi á Stade de France í dag hvort Ísland gæti unnið Evrópumótið í Frakklandi.
„Þú værir ekki hérna ef þú tryðir ekki að þú gætir gert eitthvað hér. Við í þessum hópi erum búnir að berjast fyrir því að komast á þennan stall. Við notum bara gömlu klisjuna og tökum einn leik í einu. Leikurinn við Frakka byrjar 0:0 og það er allt mögulegt,“ sagði Aron Einar.
Íslendingar mæta gestgjöfum Frakka í átta liða úrslitum Evrópumótsins á Stade de France annað kvöld og sigurliðið mætir sigurvegaranum í leik Ítala og Þjóðverja sem spila í kvöld.
„Við erum búnir að þróast vel sem lið og erum á leið í rétta átt. Það er mikil vinna sem liggur að baki og næsta kynslóð veit hversu mikið við þurftum að berjast til að vera hér. Við eigum skilið að vera hér,“ sagði Aron Einar.
Um hlutverk sitt sem fyrirliði landsliðsins sagði Aron Einar;
„Það er engin þörf á að „mótivera“ þennan hóp og ekki mikið sem ég þarf að segja. Þjálfararnir sjá um að tala og undirbúa okkur hundrað prósent. Ég þarf bara að halda hópnum vel saman. Við erum samheldnir, erum góðir og miklir vinir og erum samstíga í öllu. Við höldum alltaf áfram.“