„Í upphafi mótsins var lítil athygli á okkur og einungis íslenskir fjölmiðlamenn og kannski nokkrir sænskir sem mættu á blaðamannafundi liðsins. Eftir sigurinn gegn Englandi beindist mikil athygli að íslenska liðinu og fjölmiðlamenn frá öllum heimshornum og þá sér í lagi enskir, franskir og danskir fóru að veita okkur mikla athygli. Kannski steig athyglin okkur til höfuðs,“ sagði Kári um dagana fyrir leikinn gegn Frökkum.
„Síðan má ekki gleyma því að þetta var í fyrsta skipti sem við tökum þátt í lokakeppni stórmóts. Það var góð stemning í hópnum allan tímann, en hópurinn hefur aldrei eytt svona löngum tíma saman og kannski var komin andleg þreyta í hópinn undir lokin,“ sagði Kári enn fremur.
Englendingar nálguðust leikinn með hroka
„Mér fannst við eiginlega bara leika eins vel og við getum gert þegar við mættum Englandi í 16 liða úrslitum keppninnar. Við spiluðum betur í undankeppninni en í lokamótinu, en það er eðlilegt að falleg spilamennska hafi verið sett í annað sæti og einblínt á að ná góðum úrslitum,“ sagði Kári um spilamennsku íslenska liðsins á mótinu.
„Það eru úrslitin sem skipta máli þegar út í lokamótið kemur og það var frábært að ná að komast svona langt. Við lékum kannski ekki skemmtilega knattspyrnu, en hún var árangursrík og það gladdi okkur að ná góðum árangri. Knattspyrnuheimurinn var á okkar bandi um hríð og það var góð tilfinning að fylgjast með því,“ sagði Kári um frammistöðu íslenska liðsins á mótinu.
Kári lék ekki einungis vel í hjarta varnarinnar hjá íslenska liðinu með Ragnari Sigurðssyni heldur lét hann einnig til sín taka í sóknarleiknum. Kári lagði upp tvö mörk þegar hann stökk manna hæst í vítateig andstæðinganna eftir innköst Arons Einars Gunnarssonar og skallaði boltann fyrir samherja sína sem settu boltann í markið.
„Með allri minni dýpstu virðingu fyrir Englendingum þá finnst mér enska liðið oft og tíðum nálgast leiki sína af hroka hvað taktík vaðar. Sem dæmi um það er hvernig þeir tókust á við löng innköst okkar, sem eru eitt beittasta vopnið í vopnabúri okkar í sóknarleiknum,“ sagði Kári um leik íslenska liðsins gegn Englandi.
„Wayne Rooney er frábær knattspyrnumaður en það er ofar mínum skilningi hvers vegna honum var falið það hlutverk að dekka mig í föstum leikatriðum. Það er sér í lagi einkennilegt að þeir hafi ekki verið betur undirbúnir þar sem við höfðum gert það nákvæmlega sama þegar við fengum innkast á þessum stað í fyrri leikjum liðsins á mótinu,“ sagði Kári enn fremur um enska liðið.