„Núna vitum við bara að við erum úr keppni og eigum einn leik eftir sem við ætlum að vinna og ganga stoltar frá. Við ætlum brjálaðar í leikinn og stoltar heim,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir sem átti frísklega innkomu gegn Sviss á EM í knattspyrnu í Hollandi í gær.
Ísland á nú aðeins eftir leik við Austurríki á miðvikudag sem hefur litla þýðingu þar sem ljóst er að Ísland endar í neðsta sæti riðilsins sama hvernig fer.
Hólmfríður lék sinn 111. landsleik en hún var frá keppni framan af ári eftir að hafa ristarbrotnað í janúar. Mikil vinna við að komast aftur í landsliðið skilaði sér í því að hún spilaði um 20 mínútur í gær eftir að hafa komið inn á sem varamaður:
„Mér fannst gaman að koma inn. Þetta var fyrsti landsleikurinn minn í langan tíma og ég var búin að bíða eftir kallinu svolítið lengi. Á sama tíma var hins vegar leiðinlegt að tapa leiknum,“ sagði Hólmfríður. Skömmu eftir að hún kom inn á braut Lara Dickenmann á henni, en Dickenmann hafði fengið gult spjald snemma leiks fyrir gróft brot á Dagnýju Brynjarsdóttur. Fyrir brotið á Hólmfríði fékk Dickenmann ekkert spjald:
„Mér fannst hún klárlega eiga að fá rautt spjald. Hún horfði aldrei á boltann og fór bara beint í líkamann minn. Ég er búin að horfa á þetta nokkrum sinnum aftur og hún hefði klárlega átt að vera rekin af velli. Það hefði skipt miklu máli því þá voru enn 17-18 mínútur eftir af leiknum,“ sagði Hólmfríður.