Frammistaða leikmanna á borð við Ingibjörgu Sigurðardóttur, Sigríði Láru Garðarsdóttur og Öglu Maríu Albertsdóttur á Evrópumótinu í Hollandi hefur vakið athygli erlendra knattspyrnufélaga.
Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kom inn á þetta á fréttmannafundi í dag þegar hann var spurður út í það hvort Ísland þyrfti ekki fleiri atvinnumenn:
„Þetta er ákveðin ákvörðun sem þarf að taka, og fórnfýsi sem þarf að sýna. Sumir leikmenn hafa gert það og tekist vel, og aðrir ekki. Ég veit ekki rétta svarið við þessu, en ég veit að það er áhugi á íslenskum leikmönnum. Ég er með ansi marga tölvupósta sem ég þarf að svara eftir mót,“ sagði Freyr. Aðspurður hvaða leikmenn væri aðallega spurt um svaraði hann:
„Það eru í raun allir leikmenn sem eru ekki þekktar stærðir fyrir sem einhver félög eru að biðja um upplýsingar um,“ og því má ætla að fyrrnefnt þríeyki, sem spilað hefur sína fyrstu mótsleiki með landsliðinu í Hollandi, sé þar á meðal.