Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari segir það koma sterklega til greina að gera breytingar á byrjunarliði Íslands fyrir leikinn gegn Austurríki á miðvikudag, þann síðasta á Evrópumótinu í Hollandi.
Ljóst er að sama hvernig leikurinn fer þá endar Ísland í neðsta sæti síns riðils og kemst ekki áfram í 8-liða úrslitin. Freyr vill þó ekki nýta leikinn í neina tilraunamennsku og kveðst ekki farinn að horfa strax til undankeppni HM sem hefst í haust.
„Við spilum til að vinna. Það er það eina sem er í kollinum á mér. Að fara út úr þessu móti með sigri. Ég mun taka afstöðu um hverjar byrja leikinn út frá líkamlegu og andlegu ástandi. Það er eðlilega misjafnt, eftir tvo erfiða leiki,“ sagði Freyr á fréttamannafundi í dag.
„Frammistaðan hefur verið góð og kraftur í því sem við erum að gera. Við erum ánægð með langflest sem við höfum gert en litlu hlutirnir hafa ekki dottið með okkur, eins og gengur og gerist í fótbolta. Við viljum fara út úr þessu móti sem sigurvegarar. Það skiptir miklu máli fyrir þetta lið og íslenskan fótbolta. Við lifum í núinu og svo byrja ég að undirbúa liðið fyrir næstu undankeppni strax á fimmtudaginn,“ sagði Freyr.
Aðspurður hvort til greina kæmi að tefla fram leikmönnum sem lagt hefðu sérstaklega mikið á sig til að ná mótinu, eins og Hólmfríði Magnúsdóttur og Söndru Maríu Jessen sem vinna þurftu bug á meiðslum, svaraði Freyr:
„Þær geta vel byrjað leikinn. Ég sagði bara að við ætluðum að vinna. Ég treysti öllum 23 leikmönnum mínum til að byrja. Ég geri mögulega breytingar á byrjunarliðinu, það kemur sterklega til greina, en það er ekki bara til að prófa eitthvað. Við ætlum að ná fram sigri, fyrir okkur en ekki síður fyrir fólkið í landinu og stuðningsmennina sem eru hérna. Það er skýr krafa hjá okkur að við endum þetta mót eins og við komum inn í það; af fullum krafti og með stolti og vilja til að ná góðum úrslitum.“